Farið hefur verið fram á að BGE eignarhaldsfélag verði tekið til gjaldþrotaskipta en félagið hélt utan um 1,64% hlut í Baugi Group. Stærstu hluthafar félagsins eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, og fjármálastjórinn Stefán H. Hilmarsson, sem hver fór með 24% hlut. Sex aðrir starfsmenn Baugs voru á meðal eigenda.

BGE tapaði 830 milljónum króna árið 2008 og var eignarhlutur félagsins í Baugi Group verðlaus með öllu í árslok. Ári áður hafði eignarhlutur félagsins í Baugi verið metinn á 1,9 milljarða króna. Eigið fé félagsins var neikvætt um 99 milljónir króna í lok árs 2008.

Fjármagnaði kaup starfsmanna

Í árslok 2008 var langstærsta eign félagsins skuldabréfaeign upp á 2,8 milljarða króna en félagið hafði veitt starfsmönnum Baugs Group hf. lán til fjármögnunar á kaupréttum í félaginu, sem voru þá fullnýttir. Hluthafalánin voru veitt á hagstæðum kjörum, Libor + 1,9% álagi og áttu að koma til greiðslu á árunum 2009-2012. Kaupþing fjármagnaði félagið og voru veðin í bréfunum sjálfum. Í fyrra átti BGE að greiða bankanum um 1.754 milljónir króna.