*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 27. september 2013 14:05

Félag Bjarna græðir næstum 400 milljónir

Félag Bjarna Ármannssonar átti eignir upp á rúma 3,2 milljarða króna um síðustu áramót.

Ritstjórn
Bjarni Ármansson.
Haraldur Guðjónsson

Félagið Sjávarsýn sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka, hagnaðist um tæpar 375 milljónir króna í fyrra. Þetta er margfalt meiri hagnaður en árið 2011 þegar hann nam tæpum 10,8 milljónum króna.

Fram kemur í ársreikningi félags Bjarna að eignir þess námu rúmum 3,2 milljörðum króna um síðustu áramót samanborið við 2,7 milljarða í lok árs 2011. Á móti námu skuldir einum milljarði króna í lok árs 2012 sem var 150 milljónum meira en ári fyrra.

DV fjallar um uppgjör Sjávarsýnar í dag og rifjar upp að félagið var einna þekktast fyrir að hafa haldið utan um eignarhluti Bjarna í Glitni. Hann seldi hlutabréfin fyrir um átta milljarða króna eftir að hann hætti sem bankastjóri Glitnis í lok apríl 2007. Hann fékk yfirverð fyrir bréfin en skilaði því til baka, um einum milljarði króna. 

DV segir Bjarna ekki áhættusækinn fjárfesti og hafi það verið haft á orði í fjármálalífinu að hann sé skuldabréfamaður. Bent er á að skuldabréfaeign Sjávarsýnar nam 2,7 milljörðum króna í lok síðasta árs.