Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, stefnir á að kaupa skuldabréf sem CCP ætlar að gefa út á næstunni og hefur hug á að taka þátt í fjármögnun félagsins. Stjórn CCP leggur fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður á þriðjudag í næstu viku, að gefa út skuldabréf upp á 20 milljónir dala, jafnvirði 2,6 milljarða króna, til fimm ára. Bréfin eru með breytirétti sem gerir þeim sem kaupir bréfin kleift að breyta þeim í hlutabréf á tilteknum kjörum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Þá liggur fyrir aðalfundinum tillaga stjórnarinnar að auka hlutafé fyrirtækisins um allt að 625 milljónir króna að nafnvirði í tengslum við skuldabréfaútgáfuna með útgáfu nýrra hluta.

Fjallað er um málið að hluta í Markaðnum, viðskiptahluta Fréttablaðsins, í dag.

Novator er stærsti einstaki hluthafi CCP með 30,4% hlut.

Í tillögu stjórnar CCP kemur hins vegar fram að hluthafar hafi ekki rétt til áskriftar í hlutafjáraukningunni.

Fram kemur í svari frá Ragnhildar Sverrisdóttur, talsmanns Novators, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið, að afstaða Novators sé sú, að félagið hafi vissulega áhuga á að taka þátt í boðaðri fjármögnun og styðja við CCP hér eftir sem hingað til.