Sérhæft yfirtökufélag (SPAC) Richards Branson, stofnanda Virgin Group, Virgin Group Acquisition Corp III, stefnir á að safna um 500 milljónum dala með frumútboði samhliða skráningu í kauphöllina í New York. Er stefnt að því að selja 50 milljónir hluta í félaginu á genginu 10 dalir á hlut. Reuters greinir frá.

Sérhæfða yfirtökufélagið hyggst aðallega einblína á yfirtöku á félögum sem starfa í ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu, heilsu- og heilbrigðisgeiranum og endurnýtanlegri orku.

Frumkvöðullinn og fjárfestirinn Branson hefur þegar átt aðkomu að nokkrum öðrum sérhæfðum yfirtökufélögum sem hafa alls safnað hundruð milljónum dala.

Áhugasamir lesendur geta kynnt sér nánar hvað sérhæfð yfirtökufélög (SPAC) eru í meðfylgjandi grein .