Eignarhaldsfélagið Holtasel, fyrrum móðurfélag byggingarrisans Eyktar, hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Skiptastjóri hefur verið skipaður yfir þrotabúið og lýsir hann eftir kröfum í það í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar kemur fram að félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. júní síðastliðinn. Skiptafundur hefur verið boðaður 16. september næstkomandi.

Holtasel var sömuleiðis eigandi félagsins Höfðatorgs, sem reisti samnefnda byggingu við Borgartún. Höfðatorg var auglýst til sölu 20. júní síðastliðinn, sama dag og Holtasel var úrskurðað gjaldþrota.

Skulduðu tugi milljarða

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um stöðu Eykar vorið 2010. Þar kom m.a. fram að móðurfélag Eyktar og og ellefu dótturfélög þess skulduðu samtals 44 milljarða króna í árslok 2008. Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um samtals 19,3 milljarða króna. Öll félögin utan Eyktar voru með neikvætt eigið fé. Mestar voru skuldirnar vegna Höfðatorgs ehf, sem hélt  utan um Höfðatorgsbygginguna. Þær námu 19,3 milljörðum króna var eigið fé félagsins neikvætt um 9,8 milljarða króna. Rúmlega tíu milljarðar króna voru á gjalddaga á árinu 2009.

Í ársreikningi Holtasels fyrir uppgjörsárið 2011 segir að rekstur og og skuldastaða félagsins hafi verið mjög slæm frá árinu 2008. Ljóst sé að náist ekki samningar við lánadrottna félagsins um niðurfellingu skulda þá sé rekstrarhæfi félagsins brostið. Nokkur af dótturfélögunum félagsins fóru fram á gjaldþrotaskipti á árinu 2011 og undir lok ársins fór slitastjórn VBS fram á gjaldþrot á félaginu. Það var síðar dregið til baka.

Félagið hagnaðist um 855 milljónir króna árið 2011. Eignir námu hins vegar aðeins 1,6 milljónum króna og bókfært eigið fé í árslok er neikvætt um 1.692 milljónir króna.