*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Innlent 20. janúar 2021 15:41

Félag Edwards greiði 30 milljónir

USAerospace Associates þarf að greiða hugbúnaðarfyrirtæki tæpar 30 milljónir vegna uppgjörs samnings aðila.

Jóhann Óli Eiðsson
Michele Roosevelt Edwards.
vb.is

USAerospace Associates LLC, félag Michele Roosevelt Edwards, eiganda Wow air, þarf að greiða hugbúnaðarfyrirtækinu Mavericks ehf. rúmlega 40 milljónir króna, auk dráttarvaxta, vegna vinnu sem Mavericks innti af hendi fyrir flugfélagið. Frá fjárhæðinni dragast fimm innborganir, samtals um ellefu milljónir króna.

Samkvæmt samningi aðila átti Mavericks að vinna að vef- og hugbúnaðarþróun ásamt þjónustu fyrir flugrekstrartengda starfsemi. Tímagjald skyldi vera 15 þúsund krónur, auk virðisaukaskatts, og aldrei greitt fyrir minna en 320 vinnustundir á mánuði. Að auki fól samningurinn í sér uppsetningar á bókunarkerfi án sérstaks endurgjalds.

Síðasta dag ársins 2019 sagði Mavericks upp samningnum en tók fram að mikill vilji væri til að halda „vegferðinni“ áfram en með nýju og endurskoðuð fyrirkomulagi. Nokkur samskipti voru milli aðila næstu daga og þann 7. janúar 2020 tilkynnti Mavericks að félagið vildi halda samstarfi áfram en því lýst yfir að Wow þyrfti að gera upp við félagið. Þá voru 17 milljónir útistandandi.

„Takk fyrir þessi viðbrögð. 150% skilningur gagnvart ykkar afstöðu enda stendur ekki annað til en að samningar milli aðila verði efndir,“ sagði í tölvupósti frá fyrirsvarsmanni USAerospace Associates til Mavericks um þetta leyti. Um miðjan janúar rifti félagið hins vegar samkomulaginu þar sem Mavericks hafi ekki enn lokið þeim hluta sem átti að liggja fyrir í árslok 2019. Mavericks krafðist þess að reikningar yrðu greiddir en USAerospace á móti að félagið myndi endurgreiða þegar greitt fé þar sem verkið hefði verið ónothæft.

Fyrir dómi krafðist USAaerospace sýknu á þeim grunni að Mavericks hefði ekki staðið við sinn hluta samningsins, það er að nothæfur hugbúnaður hefði þurft að liggja fyrir í árslok 2019. Öllum kröfum hugbúnaðarfélagsins var mótmælt.

Vanskil langt á undan athugasemdum

Í niðurstöðu dómsins kom fram að ekki væri byggt á ástæðum sem gætu leitt til ógildingar samningsins. Hins vegar væri byggt á því að umsamin vara hefði verið gölluð. Að mati dómsins bar USAerospace sönnunarbyrðina fyrir því að umrædd vara hefði verið gölluð en félagið hefði ekki gert reka að því að færa sönnur á það fyrir dómi, til að mynda með öflun mats dómkvadds matsmanns.

Fyrir dómi hafði Mavericks skorað á USAaerospace um að fyrirsvarsmaður félagsins myndi gefa skýrslu fyrir dómi en síðarnefnda félagið varð ekki við því.

„Raunar bera gögn málsins auk þess með sér að lögmaður stefnda hafi ítrekað í samskiptum málsaðila sagt greiðslur vera væntanlegar, sbr. einkum fyrirliggjandi samskipti í gegnum forritið Whatsapp, en þær hafi síðan ekki borist nema að afar takmörkuðu leyti. Vanskil af hálfu stefnda urðu þannig umtalsverð löngu áður en hann hafði uppi nokkrar athugasemdir við þjónustu stefnanda í janúar 2020. Fram að þeim tíma hafði stefndi ekki haft uppi nokkrar athugasemdir við útgefna reikninga stefnanda eða andmælt þeim á annan hátt,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Dómurinn féllst af þeim sökum á kröfu Mavericks að fullu. Að auki var USAerospace gert að greiða 1.550 þúsund krónur í málskostnað.

Stikkorð: Wow