Félagið Gildruklettar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. maí síðastliðinn, að því er kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Félagið var í jafnri eigu þeirra Einars Sveinssonar, Benedikts Jóhannessonar og Halldórs Teitssonar og átti þar til í ársbyrjun rúmlega 5% hlut í Nýherja.

Félagið skuldaði Sparisjóðnum í Keflavík tæplega hálfan milljarð króna að því er kom fram í DV í fyrra en Landsbankinn tók SpKef yfir árið 2011.

Vb.is greindi svo frá því í janúar á þessu ári að Nýherjahluturinn hefði verið seldur til Landsbankans og var salan hluti af skuldauppgjöri Gildrukletta gagnvart bankanum.

Síðasta uppgjör Gildrukletta liggur fyrir árið 2009. Þar kemur fram að félagið tapaði 205,4 milljónum króna sem bættist við 242,4 milljóna króna tap árið 2008. Eignir námu í lok ársins 207 milljónum króna og eigið féð neikvætt um 270,7 milljónir króna á móti rúmlega 477,7 milljóna króna skuldum.

Í uppgjöri Gildrukletta er tekið fram að stærstur hluti eigna félagsins eru hlutabréf skráð í Kauphöll og höfðu þau lækkað verulega. Þá segir að stjórnendur fyrirtækisins eigi í viðræðum við lánastofnanir um langtímaskuldir fyrirtækisins.