Engar eignir fundust upp í rúmlega 1,2 milljarða króna kröfur lánardrottna í þrotabú einkahlutafélagsins AB 190 ehf. Félagið var eigandi félagsins Skel Investments og í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, sem jafnframt var stjórnarformaður Skeljungs, og Guðmundar Þórðarsonar. Skel Investments keypti árið 2008 51% hlut Miðengis, dótturfélags Glitnis, nú Íslandsbanka, í Skeljungi og fékk lánað 1,4 milljarða fyrir kaupunum.

Bæði félögin voru úrskurðuð gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 22. apríl síðastliðinn og lauk skiptum á þrotabúi AB 190 ehf 11. ágúst síðastliðinn.

Svanhildur sagði í samtali við VB.is í vor ýmislegt hafa verið brogað við sölu Miðengis á Skeljungi. Bankinn hafði dregið að ganga frá sínum skyldum  í kaupsamningnum og neitað að standa við kaupsamninga sem gerðir voru eftir fall bankans. Til viðbótar hafi meiri skuldir fylgt Skeljungi en samningar kveðið á um. Svanhildur sagði lánið vegna kaupanna hafa borið háa verðtryggða vexti, 9,9% og ljóst að erfitt yrði að standa undir því. Eigendur félagsins hafi tapað öllu sínu, þar á meðal eiginfjárframlagi upp á 1,5 milljarða króna.