Íbúð Árna Magnússonar á Flórída í Bandaríkjunum var seld á nauðungaruppboði í lok ágúst á þessu ári fyrir 22 milljónir króna. Árni er fyrrverandi félagsmálaráðherra á árunum 2003 til 2006 en er nú forstöðumaður orkusviðs hjá Íslandsbanka.

DV fjallar um málið í dag.

Árni réð sig til starfa hjá Íslandsbanka, sem síðar var Glitnir, í mars árið 2006 og tók þá við sem forstöðumaður á fjárfestinga- og alþjóðasviði. Sama ár stofnaði hann eignarhaldsfélagið AM Equity. Félagið fékk 100 milljónir króna að láni sama ár og átti jafn mikið í hlutabréfum. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi fyrir uppgjörsárið 2010 var staða félagsins heldur verri. Virði hlutabréfanna var að engu orðið. Eignir félagsins námu 33,6 milljónum króna, þar af fasteign upp á 28,5 milljónir króna. Á móti námu skuldir 237,7 milljónum króna. Skuldabréfið sem virðist hafa verið tekið árið 2006 208 milljónum króna. Áfallnir vextir námu 29,4 milljónum króna.

Fjallað er um Árna í Rannsóknarskýrslu Alþingi en hann var sjötti hæsti lántakandinn í hópi stjórnmálamanna og einstaklingum þeim tengdum fyrir hrun.

DV bendir á að árið 2010 hafi Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, gefið það út að kúlulán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa í Glitni fyrir hrun yrðu afskrifuð. DV sendi fyrirspurn til Árna vegna málsins. DV segir hann lítið hafa viljað tjá sig um málið en sagt félagið vinna að uppgjöri við Íslandsbanka. „Það mál er í eðlilegu ferli innan bankans,“ segir hann.