Fjárfestingarfélagið Teton hagnaðist um rétt rúmar 364 milljónir króna í fyrra og snýr það við rúmlega 87 milljóna króna tapi árið 2010 og tæplega 38 milljóna króna tapi fyrir tveimur árum. Staða félagsins er sterk. Eignir nema rúmum 1.500 milljónum króna, þar af er verðbréfaeign upp á tæpar 753 milljónir króna og 144 milljónir í handbært fé. Eigið fé félagsins nemur 1,3 milljörðum króna. þar af er óráðstafað eigið fé tæpur 1,1 milljarður króna. Skuldir á móti nema aðeins 136 milljónum króna.

Fjárfestingarfélagið Teton er í eigu fjárfestanna Vilhjálms Þorsteinssonar, stjórnarformanns CCP og fulltrúa í stjórnlagaráði, og Arnar Karlssonar, sem eiga sinn hvorn 40% hlutinn, og Gunnlaugs Sigmundssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins, sem á 20%. Hlutur þeirra er skráður á þrjú eignarhaldsfélög sem öll eru skráð í Lúxemborg..

Fram kemur í umfjöllun DV um Teton í dag að félagið var stofnað utan um sölu á 15% eignarhlut þremmenninganna í fjárskiptafyrirtækinu Kögun til Dagsbrúnar, síðar Teymis, árið 2006. Bent er á það í umfjölluninni að hagnaður félagsins af sölu hlutabréfa það ár hafi numið tæpum hálfum milljarði króna.

Félagið greiddi síðast hluthöfum sínum arð árið 2009 upp á 600 milljónir króna. Þá greiddi það hluthöfum út rúmar 148 milljónir af hlutafé árið 2006.

Gunnlaugur mætti í dómssal í síðustu viku vegna aðalmeðferðar í meiðyrðamáli hans á hendur bloggaranum Teiti Atlasyni sem gagnrýndi harkalega aðkomu Gunnlaugs að Kögun. Gunnlaugur var framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands sem síðar varð að Kögun. Umfjöllun sína byggði Teitur að stórum hluta á umfjöllun Morgunblaðsins af aðkomu Gunnlaugs að Kögun og hann þar sagður hafa notfært sér upplýsingar sem framkvæmdastjóri Kögunar til eigin hagsbóta.