Veiking krónunnar í dag er rakin til ótta fjárfesta um hugsanlega eitraðar eignir inn á bókum Kaupþings. Dow Jones hefur það eftir Beat Siegenthaler, sérfræðingi hjá TD Securities, að hugsanleg vandræði Drake Management skapi óvissu um gengishorfur krónunnar.

Samkvæmt árskýrslu Kaupþings fyrir árið 2007 á íslenski bankinn 20% hlut í bandaríska félaginu Drake Management. Eins og rakið var í  Viðskiptablaðinu á þriðjudag eru margir vogunarsjóðir í vanda um þessar mundir sökum þeirrar lánsfjárkreppu sem nú ríkir á mörkuðum. Drake Management stýrir sjóðum að verðmæti átta milljarða Bandaríkjadala en Dow Jones hefur sagt frá því að fjárfestar sem eiga um 3 milljarða dala í sjóðnum hafa krafið forráðamenn hans um að fá fé sitt til baka.

Bloomberg-fréttaveitan sagði frá því í gær að forráðamenn Drake Management hafi sent bréf til fjárfesta þar sem fram kemur að hugsanlega þurfi að loka stærsta sjóðnum sem félagið stýrir – Global Opportunities Fund - í kjölfar þess að markaðsvirði hans hrundi um 25% á síðasta ári. Samkvæmt Bloomberg þá er lokun Global Opportunities einn þeirra kosta sem forráðamenn Drake íhuga til þess „að viðhalda og hámarka hag eigenda á tímum niðursveiflna á mörkuðum og lausafjárþurrðar.” Dow Jones fréttaveitan fullyrðir einnig að tilkynnt verði um endurskipulagningu sjóðsins bráðlega - hugsanlega síðar í dag.

Drake hafði lokað fyrir að fjárfestar gætu dregið fé sitt úr sjóðnum í desember. Meðal þeirra leiða sem forráðamenn sjóðsins eru að íhuga til þess að bjarga Global Opportunities samkvæmt Bloomberg er að leyfa fjárfestum að draga fé sitt út eftir 18 mánuði eða færa eignir sínar í nýjan sjóð. Drake, sem var með um 13 milljarða Bandaríkjadala í stýringu í árslok, íhugar jafnframt svipuð úrræði fyrir tvo aðra sjóði sem eru í rekstri þess. Bloomberg leitaði ummæla hjá Shawn Pattison, talsmanni Drake, sem neitaði að tjá sig um málið.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á þriðjudag hafa sex vogunarsjóðir, með eignir að verðmæti 5,4 milljarða dala, neyðst til að halda brunaútsölu á eignum ellegar að gengið hefur verið á þá af lánadrottnum frá því 15. nóvember. Það er ekki síst vegna þessa ástands sem að bandaríski seðlabankinn tilkynnti um í gær að hann hygðist veita 200 milljörðum dala út í fjármálakerfið og meðal annars taka veð í fasteignatryggðum fjármálagjörningum gegn lánum.