Gengi hlutabréfa í fyrirtæki Opruh Winfrey, Weight Watchers,hækkaði um 13% upp í 53,18 dali í kjölfar þakkarræðu sem hún hélt á Golden Globe verðlaunaafhendingunni sem fram fór á sunnudagskvöld í Bandaríkjunum.

Ræðan sem hún hélt snerti á málefnum kynþátta og kynferðisáreitnis og ýtti undir vangaveltur um mögulegt forsetaframboð fjölmiðlakonunnar að því er Financial Times greinir frá. Þegar þetta er skrifað er gengi bréfanna 52,62 bandaríkjadalir sem nemur 12,17% hækkun frá fyrri viðskiptadegi.

Oprah Winfrey, sem á um 10% hlut í félaginu, fékk starfsferil verðlaun sem kennd eru við Cecil B. DeMille, en hún hefur haldið úti vinsælum spjallþætti í bandarísku sjónvarpi í aldarfjórðung.

Árið 2015 lét hún fyrst vita af hlut sínum í félaginu Weight watchers og hefur hún síðan orðið andlit fyrirtækisins sem hjálpar fólki við að berjast við aukakílóin. Síðan hún gekk til liðs við félagið hefur áskrifendafjöldinn í fyrirtækinu aukist um 22% upp í 3,4 milljónir fylgjenda í lok september 2017.

Á síðasta ári hækkaði gengi bréfa í félaginu um 286%, en síðan Oprah sagði frá sínum eignarhlut hefur gengið hækkað um 500% í virði.