Félagið Artemis Capital Sarl, sem er skráð í Lúxemborg og er í eigu tveggja belgískra lögfræðinga, hefur keypt fasteign athafnamannsins Sigurðar Bollasonar og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur, í Skildinganesi í Skerjafirðinum. Lögfræðingarnir tveir sitja einnig í stjórn félagsins Sparkle SA, sem keypti fasteign Unnar Sigurðardóttur, sambýliskonu Hannesar Smárasonar, á Fjölnisvegi. Sparkle SA er líkt og Artemis Capital Sarl með heimilisfesti í Lúxemborg.

Fréttatíminn greinir frá fasteignakaupunum í dag. Í fréttinni kemur fram að Nanna keypti húsið í Skerjafirðinum í nóvember 2006 af Gísla Guðmundssyni, fyrrverandi aðaleiganda B&L. Húsið er um 430 fermetrar.

Lögmannsstofan BBA Legal sá um kaupin og söluna. Bjarki H. Diego, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi, hafði umboð frá Artemis Capital til að kaupa húseignina en Beneditto Val Nardini hafði umboð frá Nönnu Björk og Sigurði Bollasyni til að selja hana. Bjarki Diego sagði í samtali við Fréttatímann að hann hefði fengið umboð frá félaginu til að ganga frá þessum kaupsamningi. Að öðru leyti hefði hann ekki hugmynd um hverjir ættu félagið.