Glacier Securities LLC, dótturfélag Íslandsbanka í New York, leiddi fyrirtækjaráðgjöf til Compania Pesquera Camanchaca S.A. við sölu á dótturfélagi þess í Ekvador, en félagið heitir Pesquera Centromar S.A.. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Camanchaca er sjávarútvegsfyrirtæki sem er skráð á hlutabréfamarkaði í Santiago í Chile.  Kaupandi Centromar er hópur fjárfesta frá Perú leiddur af Congelados Peruana del Pacífico-CONPEPAC S.A. Bindandi samkomulag hefur verið undirritað milli aðila og eru kaupin gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun sem er áætlað að verði lokið í byrjun október.  Glacier vann að verkefninu í Chile í gegnum samstarf sitt við ráðgjafafyrirtækið Rainmaker Ltda.

Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka segir að bankinn hafi fulla trú á að nýta megi íslenska sérþekkingu í sjávarútvegi til tekjusköpunar í auknum mæli í alþjóðlegum viðskiptum. „Ráðgjöf Glacier Securities til leiðandi sjávarútvegsfyrirtækis í Chile er góður vitnisburður um hversu eftirsótt sérþekkingin okkar og ráðgjöf í þessari grein er," segir Tryggvi.