Félagið Solvina, sem er í 90% eigu Straumborgar, félags Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu, hefur keypt ráðandi hlut í lettneska útgáfufyrirtækinu Karzu izdevnieciba Jana seta. Kaupverðið hefur ekki verið gefið út.

Jana seta sérhæfir sig í útgáfu korta og ferðabóka og hefur verið starfrækt frá árinu 1994. Samfara þenslu í ferðaiðnaði og aukinni uppbyggingu á því sviði hefur fyrirtækið vaxið hratt og er nú í hópi stærstu kortaútgáfu- og sölufyrirtækja í austurhluta Evrópu.

Fyrirtækið selur auk korta og ferðabóka ýmislegt sem ferðum tengjast, þar á meðal GPS-staðsetningartæki, áttavita, hnattlíkön o.fl.

Straumborg á 90,5% í Solvina og félagið Latvian Capital Ventures 9,5% Solvina er fasteigna- og þróunarfélag sem á t.d. húsnæði það sem hýsir Depo-verslanirnar, sem eru lettneskt tilbrigði við Byko en Straumborg á tæplega helming í Depo-búðunum, og rúman þriðjung í Vika Wood-sögunarmyllunni í Lettlandi.

Þetta kemur fram hjá Latvian News Agency.