Íslenskir fjárfestar hafa nú keypt meirihluta í lettneska bankanum Lateko- banka. Straumborg ehf., félag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, hefur keypt 51% í bankanum.

Í fréttatilkynningu segir að félög tengd Jóni Helga og Byko hafi verið með starfsemi í Lettlandi frá 1993. "Ice-Balt Invest ehf., félag í eigu Þorsteins Ólafssonar og Vitalijs Gavrilovs, formanns vinnuveitendasambands Lettlands, hefur keypt 9%. Helstu eigendur bankans fyrir kaupin, sem eru lettneskir, verða áfram mikilvægir hluthafar með 40% hlutafjár.

Um Lateko-banka
Lateko er viðskiptabanki með eignir upp á um 30 milljarða króna. Hann rekur 10 útibú og um 67 minni afgreiðslustaði. Einnig rekur hann skrifstofur í London og Moskvu. Hjá honum starfa um 550 manns. Bankinn var stofnaður árið 1992 og er bæði afar arðbær og hefur vöxtur á umfangi viðskipta hans verið mikill.

Lateko-banki er tíundi stærsti af 23 bönkum Lettlands ef miðað er við heildareignir. Bankinn var valinn besti banki ársins 2005 af tímaritinu The Banker.

Íslensk fyrirtæki hafa stofnað til mikillar starfsemi í Lettlandi síðan landið fékk sjálfstæði. Lateko-banki hyggst meðal annars bjóða íslenskum fyrirtækjum þjónustu á sviði almennrar bankaþjónustu, lána og fjárfestingarbankastarfsemi, svo sem við kaup og sölu fyrirtækja.

Um Lettland
Hagvöxtur hefur verið mikill í Lettlandi á síðustu árum, enda hefur efnahagslegt frelsi aukist mikið og er landið komið í hóp 40 frjálsustu ríkja heims, samkvæmt mati Heritage-stofnunarinnar í Bandaríkjunum, eftir að hafa verið sovétlýðveldi fyrir einum og hálfum áratug. Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 var 10,1% og hefur hagvöxturinn verið stöðugur og mikill síðustu ár. Meðaltekjur á mann eru enn lágar þótt vöxtur þeirra hafi verið mikill og er því búist við áframhaldi á miklum vexti í landinu.

Lettland er bæði í Evrópusambandinu og NATO," segir í tilkynningunni.