*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 12. mars 2018 11:01

Félag Karls Wernerssonar gjaldþrota

Aurláki, félagið sem keypti Lyf og Heilsu út úr Milestone fyrir gjaldþrot þess getur ekki greitt milljarðs skuld við þrotabúið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Félag í eigu Karls Wernerssonar, Aurláki ehf. hefur verið úrskurðað í gjaldþrotaskipti, en félagið hefur verið úrskurðað til að greiða þrotabúi Milestone rúmlega 970 milljónir króna. 

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma, þegar Héraðsdómur úrskurðaði fyrst í málinu þá átti fyrirtækið ekki fyrir skuldinni, ef niðurstaðan yrði staðfest í Hæstarétti. 

Það var síðan gert 1. febrúar síðastliðinn og var félagið úrskurðað í gjaldþrotaskipti 21. febrúar síðastliðinn. Lyfjaverslunarkeðjan Lyf og heilsa var á vormánuðum 2008 seld út úr Milestone samsteypunni, sem varð gjaldþrota árið 2009. Keðjan skilaði 1,5 milljarða hagnaði árin 2011 til 2016.

Milestone var í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernersona, meðan Karl á alla hluti Aurláka, en héraðsdómur og síðar Hæstiréttur féllust á rök þrotabús Milestone um að tilgangur sölunnar hefði verið að koma keðjunni undan gjaldþrotinu.