Skiptum er lokið á verktakafyrirtækinu Marklendum. Félagið hét áður Hanza-hópurinn og var stórtækt í byggingageiranum í aðdraganda hruns. Félagið var um tíma eigandi að öllu fjölbýlishúsaverkefninu á Arnarneshæð í Garðabæ, byggði fjögur lyftu-hús á Rafha-reitnum í Hafnarfirði og stóð m.a. að endurbyggingu DV-hússins í Þverholti. Og eru þá fáein verkefni upp talin.

Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í desember í fyrra og lauk skiptum um miðjan síðasta mánuð. Lýstar kröfur námu 2,4 milljörðum króna. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að upp í veðkröfur hafi fengist greiddar 101,2 milljónir króna en ekkert upp í almennar kröfur. Þetta jafngildir því að kröfuhafar hafi fengið 4,3% upp í kröfur eða sem nemur 4,3 aura fyrir hverja krónu sem félagið fékk lánað.

Fótboltakempur

Bræðurnir og fótboltakempurnar Arnar og Bjarki Gunnlaugssyni áttu um tíma hlut í félaginu en seldu hann árið 2007 til félagsins Merlu ehf. Félagið er í eigu Róberts Melax, stofnanda Lyfju. Merla átti 35% hlut í Hanza-hópnum samkvæmt síðasta uppgjöri fyrir reikningsárið 2008. Eigandi Merla var á þeim tíma félagið Hamlyn Invest Limited sem skráð var á Englandi. Þá var félagið Erome Limited eigandi 30% hlutar. Félagið var sömuleiðis skráð í Bretlandi. Þessu til viðbótar var fótboltakappinn Guðni Bergsson í stjórn Hanza-hópsins. Hann sagði sig úr henni í mars í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Hanza-hópsins fyrir árið 2008 að félagið tapaði tæpum 420 milljónum króna. Það bættist við tæplega 156 milljóna króna tap árið 2007. Verðmæti fasteigna í byggingu voru skrifaðar á 221,2 milljónir króna. Eignir námu 542 milljónum króna sem er svipað og ári fyrr. Á móti námu skuldir 663 milljónir í lok árs 2008 samanborið við tæpar 255 milljónir króna í lok árs 2007. Eigið fé félagsins var því neikvætt um rúma 121 milljón krónur.