Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli EA fjárfestingafélags, sem áður hét MP banki og er að stórum hluta í eigu Margeirs Péturssonar, og Íslandsbanka, en samkvæmt dómnum þarf EA að greiða bankanum 317 milljónir króna með dráttarvöxtum frá desember 2008.

Upphaflegir deiluaðilar í málinu voru MP banki og Byr sparisjóður, en Byr er nú runninn inn í Íslandsbanka og nýr banki hefur verið stofnaður undir nafni MP banka. Sá banki er ekki aðili að málinu.

Byr höfðaði mál á hendur MP banka vegna tveggja hálfs milljarðs króna kúlulána til einahlutafélagsins Hansa, í eigu Björgólfs Guðmundssonar. Málið snýst um aðildarsamning sem gerður var að láninu. Fyrir láninu voru veðsett hlutabréf í Landsbankanum. Byr sakaði MP banka um að selja hlutabréfin fyrir rúmlega hálfan milljarð án þess að greiða Byr 60% upphæðarinnar, tæplega 317 milljónir. Það hafi hann átt að gera samkvæmt samningnum.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að MP banka beri að greiða Byr 317 milljónir auk dráttarvaxta.