Dalsnes ehf., félag sem er að fullu í eigu Ólafs Björnssonar, hagnaðist um 1,7 milljarða króna á síðasta ári. Eigið fé félagsins var 9,8 milljarðar króna í lok ársins.

Dalsnes ehf. er eigandi heildsölunnar Innness. Félagið á einnig 60% hlut í fyrirtækinu Haugen-Gruppen sem er heildsala með vörumerki á borð við Campbell’s, Heinz og Fazer á Norðurlöndunum. Þá á Dalsnes allt hlutafé í félaginu Lindarvatn ehf., sem á eignir á Landssímareitnum við Austurvöll.

Tekjur Dalsness á síðasta ári námu 41 milljarði króna. Til samanburðar voru tekjur Orkuveitu Reykjavíkur um 39 milljarðar og tekjur HB Granda um 31 milljarður. 82% tekna Dalsness urðu til utan Íslands.

Eigið fé Dalsness var um síðustu áramót nokkru meira en eigið fé Vodafone á Íslandi og um tífalt meira en eigið fé Nýherja, minnsta félagsins á Aðallista Kauphallarinnar.

Markaðsvirði vestur-evrópskra matvælaheildsala sem skráðar eru á markað var að jafnaði 1346% áf árlegum hagnaði þeirra í janúar síðastliðnum. Sé sú tala yfirfærð á Dalsnes má gróflega áætla að verðmæti eignar Ólafs í félaginu hafi verið yfir 20 milljarðar króna í upphafi árs.