Árið 2005 keypti Ineos, félag í meirihluta eigu Jim Ratcliffe, dótturfélag BP sem sérhæfir sig í jarðolíuefnum (e. petrochemicals). Ratcliffe var í Glen Nevis dalnum í Skotlandi þegar hann fékk símtal sem lagði grunninn að auðæfum hans. Financial Times segir frá .

BP hafði verið í viðræðum um að selja jarðolíuefnadótturfyrirtæki sitt en fjármálastjóri þess vildi að Ineos myndi hækka tilboð sitt í níu milljarða dollara, sem Ratcliffe samþykkti þar og þá.

„Það var frekar súrrealískt,“ sagði 67 ára viðskiptajöfurinn í ævisögu sinni, The Alchemists, sem kom út árið 2018. „Ég sagði honum ekki að ég hafi verið að stíga af fjallahjólinu mínu, þakinn í drullu og skít.“

Samningurinn þrefaldaði stærð Ineos og gerði fyrirtækið eitt af stórlöxum jarðolíuefnabransans. Í dag er stofnandinn, sem er þekktur hér á landi fyrir jarðarkaup, einn ríkasti maður Bretlands.

Ineos, með um 60 milljarða árlega veltu, gerði síðan annan fimm milljarða dollara samning við BP á dögunum um kaup á restinni af jarðolíuefnaeignum þess síðarnefnda.

Fyrirtækið virðist nú ætla að þeyta frumraun sína í bílaframleiðslu en fyrir tveimur dögum birti það hönnun á nýjum 4x4 utanvegajeppa í lögun gamla Land Rover Defender. Ineos Grenadier ætlar sér að verða fullmótaður bílaframleiðandi með safn af bílatýpum.

Íþróttaunnandi

Ratcliffe er lítið fyrir sviðsljósið og gefur sjaldan viðtöl. Hann er mikið fyrir útiíþróttir,  hleypur maraþon og fer í leiðangra til Norður- og Suðurskautslandsins.

Vörumerki Ineos blasir við á treyjum bresta hjólreiðalandsliðsins. Fyrirtækið keypti einnig svissneska fótboltaliðið FC Lausanne-Sport árið 2017 og franska liðið Nice síðasta sumar.

Erfitt að ná tökum jarðólíuefenabransanum

John Brown var forstjóri BP þegar olíurisinn átti fyrst viðskipti við Ineos og síðar stjórnarformaður L1 Energy sem seldi Ratcliffe gasjarðir (e. gasfields) í Norðursjó.

„Hann er frumkvöðull í orðsins fyllstu merkingu, kemur hlutum saman og tekur ígrundaðar áhættur sem aðrir hefðu líklegast ekki gert“, er haft eftir Browne.

„Jarðolíuefnabransinn er ekki auðveldur bransi til að vera í. Hann fer úr veisluhöldum í hungursneið, miklum umsvifum í lítil umsvif, litla framlegð í háa framlegð – það þarf mikla virka stjórnun til að taka réttar ákvarðanir.“

Gerðist frumkvöðull fertugur

Viðskiptajöfurinn, sem var sæmdur riddaratign árið 2018, fæddist í Manchester en hann ólst upp í húsnæði á vegum borgarinnar. Ratcliffe útskrifast síðan með gráðu í efnaverkfræði frá háskólanum í Birmingham árið 1974.

Eftir að hafa unnið í iðnaði og framtakssjóði (e. private equity) gerðist hann frumkvöðull um fertugt. Þá veðsetti hann húsið sitt fyrir yfirtökuna á jarðolíuefnadeild BP.

Ineos var stofnað árið 1998 og óx með skuldum og yfirtökum á óvinsælum jarðolíuefnaeignum frá fyrirtækjum líkt og ICI og BASF, áður en það færði sig upp í orkugeirann. Starfsaðferð fyrirtækisins er að skera vægðarlaust niður kostnað og bæta skilvirkni eigna.

Ratcliffe öðlaðist frægð árið 2010 þegar hann flutti höfuðstöðvar Ineos til Sviss eftir að ríkisstjórn Verkamannaflokksins neitaði að fresta virðsaukaskatti. Fyrirtækið hefur síðan þá flutt höfuðstöðvarnar aftur til Bretlands.

Hann lenti síðan í hatrömmum deilum við verkalýðsfélög í tengslum við Grangemouth verksmiðjunni í Skotlandi árið 2013 . Ratcliffe hótaði að loka verksmiðjunni sem hefði leitt til 800 uppsagna. Verkalýðsfélögin enduðu á að gefa undan sínum kröfum.

Framleiddi handspritt í faraldrinum

Í heimsfaraldrinum byrjaði Ineos að framleiða hanspritt og gaf milljónir flaska til spítala í Evrópu.

Vegna framleiðslu fyrirtækisins á plasti og eðlislægum mengandi rekstri þess hafa umhverfissinnar ásakað það um „grænþvott“ í gegnum íþróttir. Fyrirtækið fullyrðir að það fjárfesti í sjálfbærum tækifærum.

Ratcliffe, sem keypti meirihlutann í Grímsstöðum á fjöllum árið 2016 , lenti í sviðsljósinu á síðasta ári kjölfar fregna um að hann hafi flutt til Monakó til þess að komast hjá skatti. Ineos hefur neitað að tjá sig um málið.

Í kjölfar BP samningsins sem tilkynntur var fyrr í vikunni, hefur Ineos orðið lykilaðili í jarðolíuefnabransanum með auknum umsvifum í Asíu. Aukin fjölbreytni fyrirtækisins ætti að leiða til þess að það lifi efnahagslægðina af, að sögn Graham Copley hjá ráðgjafafyrirtækinu C-MACC.

„Hvað gera þeir næst? Þeir eru allir að verða gamlir. Ég held að Ineos verði eftirsótt til yfirtöku [hjá stóru olíufyrirtæki], ekki í dag en einhvern tíma í framtíðnni,“ segir Copley.