Nýir eigendur tóku við gamla Reykjavíkurapótekinu við Austurstræti 16 í dag. Það var Almenna byggingafélagið ehf, dótturfélag fasteignafélagsins Regins, sem keypti fasteignina af félaginu A16, sem er í eigu Karls Steingrímssonar í Pelsinum.

Tilkynnt var um kaupin í byrjun mánaðar . Kaupverðið mun vera trúnaðarmál.

Húsið við Austurstræti 16 var byggt á árunum 1916 - 1918 og er 2.773 m2 að stærð. Guðjón Samúelsson, arkitekti og húsameistara ríkisins, teiknaði húsið. Það á sér merkilega sögu í íslensku athafnalífi og er samofið uppbyggingu og sögu Reykjavíkurborgar. Húsið er friðað að utan, einnig tekur friðun til stigagangs að sunnan og innréttinga sem áður stóðu í apóteki.

Reginn telur eignina bjóða upp á mikla möguleika vegna einstakrar staðsetningar í miðbæ Reykjavíkur og nálægð við þjónustu, veitingastaði og menningalíf. Reginn hefur hug á því að fara í samstarf við öfluga aðila varðandi nýtingu hússins undir hótel-  og veitingarekstur.  Vandað verður til verka hvað varðar hönnun og breytingu innanhúss.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sagði í samtali við VB.is snemma í október mest borðleggjandi að hótel verði á efri hæð hússins og svo verði einhverskonar veitingastaður á neðri hæðinni. Hann telur að hægt verði að á efri hæðinni geti verið á bilinu 45-47 herbergi.