Nafni Aztiq Fjárfestingar ehf., fjárfestingarfélags Róberts Wessman, hefur verið breytt í Flóki Invest. Auk þess mun fasteignafélagið Hrjáf sem er í eigu félagsins heita Flóki Fasteignir. Í fréttatilkynningu segir að félagið standi á tímamótum eftir að lokið yfirtöku, með Innobic Asia, á Lotus Pharmaceutical sem skráð er á markað í Tævan og félaginu Adalvo af Alvogen.

Aztiq Pharma Partners skrifaði undir samstarfssamning við Innobic/PTT í Taílandi í nóvember síðastliðnum vegna kaupanna sem hljóða upp á 475 milljónir dala eða um 62 milljarða króna. Hluturinn í Lotus og Adalvo var afhentur fyrr í mánuðinum.

Sjá einnig: 62 millljarða kaup hjá Róberti og Aztiq

„Aztiq hyggur á frekari fjárfestingar í lyfja- og heilsutengdum iðnaði. Því hefur verið ákveðið að skilja á milli reksturs þeirra verkefna og annarra ótengdra fjárfestinga. Aztiq Fjárfestingar ehf breytir því um nafn og verður Flóki Invest ehf.“

Framkvæmdastjóri Flóka Invest er Guðrún Elsa Gunnarsdóttir. Eignasafn félagsins samanstendur m.a. af fasteignum á höfuðborgarsvæðinu.

Róbert Wessman:

„Mikill áhugi er meðal erlendra fjárfesta á samstarfi við Aztiq í fjárfestingum í lyfjatengdum verkefnum á alþjóðamarkaði. Til að mæta þeirri eftirspurn og til að auka gagnsæi er eðlilegt að skilja á milli fjárfestinga á Íslandi sem tengjast ekki lyfjaiðnaðum beint og þeirra verkefna sem tengjast þeim iðnaði. Með tilkomu nýrra samstarfsaðila inn í fjárfestahóp Aztiq verður til öflugt félag sem býr yfir mikilli reynslu í stofnun, fjárfestingum, rekstri og uppbyggingu lyfjafyrirtækja.“

Guðrún Elsa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Flóka Invest:

„Flóki Fasteignir kemur að uppbyggingu nýrrar íbúðarbyggðar í Vogabyggð og tekur þátt í samfélagslega mikilvægum fasteignaverkefnum eins og Þorpinu, á tímum þar sem sárlega vantar íbúðir fyrir fólk á öllum allri og í misjafnri stöðu. Við erum afar stolt af þessum verkefnum og ætlum okkar að halda ótrauð áfram.“

Jóhann G. Jóhannsson, einn stofnenda Flóka:

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Flóka Invest. Með því að skilja starfsemi Flóka Invest frá starfssemi Aztiq getum við einbeitt okkur að frekari fjárfestingum á Íslandi og tekið þátt í uppbyggingu á samfélagslega mikilvægum verkefnum hér á landi.“