Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, harmar að fyrsta konan sem gegnir embætti forsætisráðherra hafi gerst brotleg við jafnréttislög. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í kjölfarið dæmt íslenska ríkið til að greiða Önnu Kristínu Ólafsdóttur hálfa milljón króna í miskabætur upp á hálfa milljón vegna yfirlýsingar forsætisráðherra um málið. Krafa Önnu í málinu var byggð á því að forsætisráðherra hafi sýnt henni lítilsvirðingu og niðurlægt hana á opinberum vettvangi, vegið að starfsheiðri hennar, reynslu og hæfni.

Stjórn Hvatar bendir á það í ályktun sinni að að þróun jafnréttismála í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur hefur í veigamiklum atriðum stefnt í öfuga átt og á köflum gengið þvert gegn yfirlýstri stefnu forsætisráðherra í þeim efnum.

„Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur launamunur kynjanna farið vaxandi hjá hinu opinbera (skv. Könnun SFR) og hlutfall kvenna í áhrifastöðum hefur lítið breyst (skv. Hagstofu). Konur hafa verið í miklum meiri hluta þeirra sem sagt hefur verið upp störfum hjá hinu opinbera en það gengur þvert á yfirlýsta stefnu forsætisráðherra í jafnréttismálum. Jafnréttismál eiga að vera eitt af helstu baráttumálum Alþingis og sitjandi ríkisstjórnar. Augljóst er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir hefur brugðist í baráttunni fyrir jafnrétti þrátt fyrir fögur fyrirheit,“ segir í ályktun Hvatar.