Félagið Materia Invest var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. september síðastliðinn. Félagið var í eigu Þeirra Magnúsar Ármann, Þorsteins M. Jónssonar, sem löngum hefur verið kenndur við Kók, og breska fjárfestisins Kevin Standford. Eigendur félagsins flugu hátt í góðærinu, voru m.a. viðskiptafélagar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Hannesar Smárasonar, fyrrverandi forstjóra FL Group. Materia Invest átti talsvert af hlutabréfum í FL Group sem urðu verðlaus í hruninu. Þeir Magnús og Þorsteinn voru m.a. á meðal stærstu hluthafa 365 áður en hrunið skall á og félagið skipti um eigendur. Aðrar eignir voru m.a. hlutir í félögum Magnúsar Ármann.

Skiptastjóri þrotabús Materia Invest hefur kallað eftir innköllun krafna félagsins.

Eigendur ábyrgir fyrir skuldum

Materia Invest hagnaðist um 797,5 milljónir króna árið 2010 samkvæmt síðasta birta uppgjöri. Árið á undan nam tapið hins vegar tæpum fimm milljörðum króna. Hagnaðurinn árið 2010 skrifaðist að nær öllu leyti á vaxtagjöld og gengismun. Á móti námu skuldir tæpum 24,3 milljörðum króna. Eigið fé var á sama tíma neikvætt um 24 milljarða. Fram kemur í uppgjörinu að eignarhlutir Materia Invest hafi verið veðsettir fyrir skuldum við lánastofnanir og hluthafar að auki í sjálfskuldarábyrgð að hluta. Materia Invest var auk þessa í ábyrgt gagnvart skuldum félaganna Sólmon og Runnur. Sólmon var í eigu Magnúsar Ármanns en Runnur í eigu hans og Þorsteins.

Sólmon var tekið til gjaldþrotaskipta í október í fyrra og lauk skiptum fyrr á þessu ári. Engar eignir fundust upp í 3,3 milljarða króna kröfur. Magnús átti nokkur félög. Þar á meðal Imon, sem var stærsti hluthafi Byr sparisjóðs. Félagið fékk eins og þekkt er orðið 9 milljarða króna kúlulán hjá gamla Landsbankanum til að kaupa hlutabréf bankans þremur dögum áður en bankinn fór á hliðina. Í lok árs 2007 námu skuldir félaga Magnúsar 24 milljörðum króna.

Runnur var tekið til gjaldþrotaskipta um svipað leyti og Sólmon.

Þorsteinn seldi spænska drykkjavörufyrirtækinu Cobega í fyrra hlut sinn í Vífilfelli í fyrra. Salan var liður í skuldauppgjöri hans gagnvart Arion banka. Fyrir söluna námu skuldir félaga Þorsteins, Sólstafa og Neanu við Arion banka 6,4 milljörðum króna. Þá lækkuðu skuldir Vífilfells. Þorsteinn var þessu til viðbótar persónulega ábyrgur fyrir 240 milljóna króna skuldum Materia Invest við Arion banka. Sá hluti skulda hans við bankann voru sömuleiðis gerðar upp við söluna.