Danska fasteignafélagið Sjælsø Gruppen hefur samþykkt að kaupa keppinautinn Ikast Byggeindustri (IBI) fyrir 800 milljónir danskra króna, eða sem samsvarar 9,98 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Íslensku félögin Straumur-Burðarás og Samson, sem bæði tengjast Björgólfi Thor Björgólfssyni, ásamt athafnamanninum Birgi Þór Bieltvelt hafa fjárfest í Sjælsø Gruppen í gegnum félagið SG Nord Holdingog talið er að heidareignarhlutur félagins sé rúmlega 25%.

Sjælsø Gruppen mun greiða fyrir IBI með útgáfu rúmlega 225 þúsund nýrra hlutabréfa á genginu 2,199 danskar krónur á hlut, en einnig verða 303 milljónir danskra króna (3,8 milljarðar íslenskra króna) greiddar í peningum, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.
Áætluð velta IBI á árinu 2006 er 900 milljónir danskra króna og reiknað er með að hagnaður félagsins á tímabilinu nemi um 90 milljónum danskra króna. Sjælsø Gruppen segir að áætlanir um hagnað á bilinu 700-900 milljónir danskra króna á árinu 2006 muni standast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.