Jerviston, félag í eigu vatnsbóndans Jóns Ólafssonar, var í Hæstarétti í gær dæmt til að greiða Landsbankanum 445 milljónir króna.  Félagið er skráð á Bresku jómfrúaeyjum, fékk rúmar 2,2 milljónir punda að láni hjá hjá Sparisjóði Keflavíkur í apríl árið 2006 til kaupa á hlutabréfum. Gjalddagi var í apríl tveimur árum síðar, þ.e. árið 2008. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að í febrúar 2007 var gerður viðauki við samninginn meðal annars um hækkun lánsfjárhæðarinnar í 3.375.000 bresk pund.

Samkvæmt gögnum málsins var lánið veitt með svokallaðri lánalínu, sem félag Jóns gat að ákveðnum skilyrðum uppfylltum dregið á fram til 2. apríl 2007. Óumdeilt sé þó að félagið hafi ekki endurgreitt lánið á gjalddaga 22. apríl 2007, svo og að hann hafi eftir þann tíma haldið áfram að draga á lánalínuna og jafnframt að greiða inn á skuldina. Við síðustu innborgun 21. ágúst 2009 stóð skuldin í 2.255.432,96 breskum pundum, jafnvirði rúmra 420 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins.

Lögmaður Jóns krafðist sýknu í málinu enda hafi andvirði hlutabréfa Jervistone lengi vel dugað til greiðslu skuldarinnar. Því andmælti Hæstiréttur og sagði í dómi sínum að engin skylda hafi verið lögð á sparisjóðinn til að grípa til þeirra ráðstafana.

Fram kom í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu í júní í fyrra að Jón Ólafsson er í sjálfsskuldarábyrgð fyrir láninu. Sé Jervistone ekki greiðslufært verði hægt að ganga að Jóni sjálfum til greiðslu skuldarinnar.

Dómur Hæstaréttar