Árni Hauksson fer ásamt viðskiptafélaga sínum Hallbirni Karlssyni fyrir hópi fjárfesta sem samþykkti að kaupa 35,3% hlut í Högum í febrúar síðastliðnum á 4,1 milljarð króna.

Árni, sem er 45 ára gamall, nam verkfræði í Háskóla Íslands. Þaðan hélt hann til Bandaríkjanna í framhaldsnám við Caltech-háskólann og í kjölfarið Stanford-háskóla. Þegar Árni snéri aftur heim starfaði hann um skeið sem fjármálastjóri í dómsmálaráðuneytinu en varð síðar framkvæmdastjóri hjá Skyggni. Þar starfaði hann fram á árið 1996 þegar tók við starfi fjármálastjóra hjá útgáfufélaginu Frjálsri fjölmiðlun, sem gaf meðal annars út DV. Þar kynntist hann eiginkonu sinni, Ingu Lind Karlsdóttur. Þau eiga saman fimm börn.

Tímamót um aldamót

Árni tók síðan að sér starf fjármálastjóra Húsasmiðjunnar árið 2000 og óhætt er að segja að sú ákvörðun hafi markað tímamót í lífi hans. Hann sinnti því starfi fram á sumarið 2002 þegar hann, Hallbjörn Karlsson ásamt Baugi keyptu fyrirtækið. Hallbjörn var á þeim tíma starfsmaður á fyrirtækjasviði Kaupþings.

Kaupin voru fjarri því að vera óumdeild og fyrrum forstjóri Húsasmiðjunnar, Bogi Þór Siguroddsson, skrifaði bók um þau sem kom út fyrir jólin 2002 þar sem hann sakaði Árna og Hallbjörn um að hafa blekkt sig við kaupin.

Bjuggu saman í Stanford

Ferill Árna Haukssonar
Ferill Árna Haukssonar
© vb.is (vb.is)
Hallbjörn og Árni voru gamlir skólafélagar úr menntaskóla. Þeir námu auk þess báðir verkfræði við Háskóla Íslands og rekstrarverkfræði við Stanford-háskóla á sama tíma. Vinirnir deildu meira að segja íbúð á Stanford-árunum. Þegar þeir keyptu Húsasmiðjuna sagði Árni við Morgunblaðið að það hafi verið „ákveðinn prófsteinn á samstarfið að búa saman. Ef menn geta búið saman í lítilli holu lengi þá geta þeir líklega unnið saman“.

Þeir félagar seldu 55% eignarhlut sinn í Húsasmiðjunni til félags í eigu Baugs snemma árs 2005. Kaupverðið var trúnaðarmál en þó var haft eftir Árna í Morgunblaðinu að „okkar fyrirætlanir voru til langs tíma, en okkur barst tilboð sem ekki var hægt að hafna“.

Frá því að þeir seldu Húsasmiðjuna hafa þeir Árni og Hallbjörn rekið saman fjárfestingafélagið Vogabakka ehf. Síðustu árin hafa þeir að mestu fjárfest erlendis og lítið tekið þátt í íslensku viðskiptalífi. Árni átti þó hlut í 365 og sat í stjórn þess félags.

Félög í eigu Árna og Hallbjarnar áttu samtals um þrjá milljarða króna í árslok 2009 og skulduðu nánast ekkert. Þeir komu síðan með hvelli aftur inn í íslenskt viðskiptalíf í febrúar þegar tilkynnt var um að þeir leiddu hóp sem væri að kaupa að minnsta kosti rúman þriðjung í smásölurisanum Högum.