Ákveðin orkuskipti eru að eiga sér stað í samfélaginu og má í því samhengi nefna rafbílavæðinguna, en sífellt fleiri eru að skipta út bifreiðum sem ganga fyrir eldsneyti fyrir rafdrifnar bifreiðar. Þessi þróun hefur líkt og gefur að skilja nokkur áhrif á olíufélögin. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, segir að félagið sé mjög meðvitað um þær breytingar sem felast í orkuskiptunum og að félagið sé vel undirbúið til að vera ekki einungis þátttakandi í þessum breytingum, heldur í fararbroddi þeirra.

„Starfsemi Skeljungs er tvískipt landfræðilega séð. Við erum með Skeljung hérna á Íslandi og svo Magn í Færeyjum. Á báðum þessum mörkuðum er sú þróun að eiga sér stað eins og um allan heim, þ.e. tilfærsla yfir í vistvænni orkugjafa. Þessi þróun er mismunandi hröð en ég held að það dyljist engum að það er þróunin sem mun verða á komandi árum. Við höfum á báðum þessum mörkuðum undirbúið okkur undir þessa breytingu.

Nýjasta dæmi um þetta er að við tilkynntum það á dögunum að Magn hefði unnið útboð í Færeyjum og stefnir þar að uppbyggingu vindmyllna í samstarfi við þarlenda lífeyrissjóði. Færeyska ríkið var með útboð á leyfi til þess að starfrækja svokallaðan vindmyllugarð, sem mun framleiða rafmagn. Færeyingar eru komnir aðeins af stað í þessu og eru þegar að framleiða hluta af sínu rafmagni með vindmyllum.

Áðurnefnd kaup á Demich voru einnig liður í því að bregðast við þessum breytingum, en það félag leggur áherslu á varmaskipti og vistvænni húshitun. Í Færeyjum eru nánast öll heimili hituð með olíu og því er fyrir utan flest húsin þar olíutankur, sem fyllt er á og eru húsin hituð upp með því. Færeyingar eru byrjaðir að færa sig yfir í vistvænni húshitun og ríkisstjórn landsins hefur sett sér það markmið um að árið 2030 ætli þeir að vera komnir ansi langt með það að færa stóran hluta heimilanna og fyrirtækjanna úr olíuhitun yfir í vistvænni kosti. Það er því til marks um það hvað við erum meðvituð um þessa þróun að við eigum 70% hlut í Demich sem er leiðandi fyrirtæki í þessu og vorum svo að vinna fyrrnefnt útboð um vindmyllurnar. Við teljum okkur vera mjög framarlega í því að fylgjast með því sem er að gerast í starfsumhverfinu og taka þátt í því," segir hann og bætir við:

„Ný löggjöf vegna svartolíu fyrir skipaflotann er meðal breytinga sem við erum að bregðast við. Um næstu áramót eru að taka gildi lög, sem gilda um allan heim, varðandi mengunarhlutföll svartolíu í skipum. Því eru skipin að færa sig úr svartolíu yfir í olíur sem eru vistvænni s.s. skipagasolíu og DMA, sem er mun vistvænni orkugjafi. Síðan er rafbílavæðingin sömuleiðis ofarlega í huga okkar en við höfum m.a. verið að setja upp hleðslustöðvar á bensínstöðvunum okkar.

Að ofantöldu má sjá að við erum að bregðast við þessum orkuskiptum og erum meðvituð um það að á næstu fimm til sjö árum verði olíufélögin allt öðruvísi félög en þau hafa verið. Breytingarnar eru hraðar og það sést á því sem er að gerast á þessum markaði, bæði hjá okkur og keppinautum okkar. Fyrirtækin eru að styrkja sig og skjóta öðrum stoðum undir reksturinn. Þetta gerist samt ekki beint á einhverjum ógnarhraða, sem dæmi eru enn sem komið aðeins um 3% af bílaflotanum hér á landi rafbílar. Hins vegar er hlutfall rafbíla meðal nýseldra bíla upp undir 20%. Einhvern tímann mun því endurnýjunin eiga sér stað en engu að síður eru menn að reikna með að við þurfum að notast við þá eldsneytisgjafa sem við höfum haft, bensín og dísil, í þó nokkurn langan tíma áfram, en vægi þeirra mun minnka jafnt og þétt."

Nánar er rætt við Árna Pétur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .