Hagnaður Félagsbústaða árið 2017 nam rúmlega 7,5 milljörðum á rekstrarárinu 2017 sem er samdráttur um rúmlega 3,2 milljarða á milli ára en hagnaður ársins 2016 nam 10,8 milljörðum króna. Hagnaðurinn er engu að síður nokkuð mikill í samanburði við önnur fasteignafélög en hagnaður stærsta fasteignafélagsins í Kauphöllinni, Reita, nam 5,7 milljörðum á síðasta ári. Á vef Félagsbústaða segir að eitt af gildum félagsins sé að rekstur þess verði ekki í hagnaðarskyni.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsgjöld og matsbreytingu fjárfestingareigna nam tæpum 1,7 milljörðum króna en rekstrartekjur félagsins námu 3,7 milljörðum.

Heildareignir Félagsbústaða voru í lok árs 77,7 milljarðar króna sem er hækkun um liðlega 10 milljarða á milli ára. Eigið fé nam 40,3 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið því 51,9%. Skuldir félagsins námu 37,4 milljörðum króna.

Handbært fé Félagsbústaða lækkaði um 1.550 milljónir króna á árinu og námu aðeins 48,6 milljónum króna í lok árs 2017 samanborið við 1.599 milljónum króna í lok árs 2016.