Félagsbústaðir hf., sem eru í fullri eigu Reykjavíkurborgar, högnuðust um 1.161 milljón króna á fyrri helmingi ársins. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi fyrirtækisins. Hagnaðurinn er helmingi minni en hann var á sama tímabili í fyrra, en þá nam hann 2.326 milljónum króna.

Leigutekjur námu nú 1.447 milljónum króna og jukust um 14 milljónir króna milli ára. Aðrar tekjur námu 96,4 milljónum króna og voru heildartekjur því 1.543 milljónir króna. Rekstrargjöld námu 816 milljónum króna.

Eignir fyrirtækisins námu tæplega 49,2 milljörðum króna í lok tímabilsins samkvæmt efnahagsreikningi. Skuldir voru 30,5 milljarðar króna á sama tíma og eigið fé félagsins því 18,6 milljarðar króna.

Fram kemur í uppgjörinu að Reykjavíkurborg hafi skuldbundið sig til að leggja til félagsins nýtt hlutafjárframlag að fjárhæð 210 milljóna króna vegna stækkunar eignasafns þess á árinu 2015 sem samvarar 10% af áætluðu stofnverði 100 nýrra íbúða. Þegar hafa verið greiddar 50 milljónir króna.

Hlutafé félagsins í lok tímabilsins nemur 2.585 milljónum króna.