Borgarráð hefur samþykkt að hækka leigu hjá Félagsbústöðum um 5% umfram verðlagsbreytingar frá og með 1. ágúst. RÚV greinir frá. Ástæða hækkunarinnar er sú staðreynd að rekstur fyrirtækisins stóð ekki undir afborgunum lána á síðasta ári.

Félagsbústaðir, dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar, á og rekur rúmlega 2.200 félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík fyrir tekjulága. Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir síðasta árs sést hins vegar að tekjur þess duga ekki til að greiða af afborgunum lána og er reksturinn því ósjálfbær, að því er fram kemur á vef RÚV.

Í greinagerð með tillögu um verðhækkunina er vísað í mat framkvæmdastjóra Félagsbústaða að allt bendi til sífellt versnandi rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins á komandi árum verði ekki gripið til aðgerða. Tekjur af eldri og minna skuldsettum eignum félagsins dugi ekki lengur til að greiða niður leigu af nýjum skuldsettum eignum félagsins. Á sama tíma lengist biðlistar eftir félagslegu húsnæði og í farvatninu séu kaupsamningar þar sem félagið skuldbindi sig til að kaupa íbúðir í nýbyggingum á lóðum sem Reykjavíkurborg úthlutar.

Nánar má lesa um málið í frétt RÚV .