Í nýrri könnun sem Gallup framkvæmdi frá nóvember 2007 og fram í janúar 2008 á kjörum starfsfólks sem er í Bandalagi háskólamanna (BHM) kom í ljós að félagsmenn BHM telja að meðaltali laun sín þurfa að hækka um rúmlega fjórðung til að vera sanngjörn.

Spurt var „Hvaða heildarlaun finnst þér sanngjörn fyrir aðalstarf þitt?“.

Í ljós kom að meðal karla var að meðaltali 26,1% munur á raunverulegum grunnlaunum og þeim launum sem svarendur töldu sanngjörn, en þessi munur var 27,6% að meðaltali hjá konum.

Helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni töldu sig ekki eiga möguleika á launahækkun í starfi sínu, en ástæðu þess töldu flestir vera að laun eru fastbundin af kjarasamningum.

Konur reyndust að meðaltali fá rúmlega 13% lægri laun en karlar. Að teknu tilliti til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, menntunar o.fl. reyndist þessi munur vera 5,7%.  Kynbundinn launamunur var minnstur hjá félagsmönnum 30 ára og yngri.

Einnig kom í ljós að heildarlaun háskólamenntaðra starfsmanna eru lægri innan BHM en innan Verslunarfélags Reykjavíkur (VR) og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF). Bornar voru saman niðurstöður sambærilegrar könnunar sem Gallup vann á kjörum starfsmanna innan VR og SSF við niðurstöður könnunar á kjörum innan BHM.

Þannig voru heildarlaun háskólamenntaðra starfsmanna innan VR að meðaltali 466.250 kr., 518.984 kr. innan SSF en 420.327 kr. innan BHM. 54,2% félagsmanna BHM svaraði könnuninni, eða 1.658 manns.