Icelandair fellir niður flug til og frá New York í dag þriðjudag. Búið er að loka JFK-flugvellinum í New York vegna fellibylsins Sandy.

Í gær felldi Icelandair niður tvö flug til New York og eitt til Boston af sömu orsökum. Í dag er hins vegar reiknað með að önnur flug Icelandair til Bandaríkjanna verði á áætlun, þ.á.m. til og frá Boston, Washington, Orlando og Denver síðar í dag.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því í dag, að fellibylurinn hafi valdið gríðarmikilli truflun í New York og á austurströnd Bandaríkjanna í námunda við New Jersey. Mælt hefur verið með því að um ein milljón íbúa þar yfirgefi heimili sín. Sjór flæddi um götur borgarinnar og fór það niður í lestargöng, rafmagn fór af milljónum heimila á austurströnd Bandaríkjanna og eru samgöngur þar í lamasessi. Verslanir hafa verið lokaðar í borginni síðan í gær. Þar á meðal hefur hlutabréfamörkuðunum NYSE og Nasdaq verið lokað og hefur það valdið því að fyrirtæki sem þar eru skráð hafa þurft að fresta birtingu uppgjöra.

Eins og til að bæta gráu ofan á svart flæddi vatn um gólf NYSE.

Fréttastofa Reuters bendir á að á sumum stöðum á Manhattan hafi vatnið verið rúmlega fjögurra metra djúpt á götum borgarinnar. Annað eins hefur aldrei áður sést.