Skatturinn hefur ákveðið að nýta heimild til að beita ekki álagi á vangreiddan virðisaukaskatt. Þetta er gert sökum óvissu sem ríkir í efnahagslífinu. Tilkynning þessa efnis var birt á vef Skattsins í dag.

Samkvæmt tilkynningunni er ákvörðunin vegna júlí og ágúst þessa árs auk landbúnaðarskila sem eru á gjalddaga næstu mánaðarmót. Afleiðing ákvörðunar Skattsins er að svigrúm til greiðslu virðisaukaskatts eykst um allt að mánuð. Dráttarvextir leggjast þó á séu gjöldin ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga.

Ákvörðunin nær til neðangreindra gjalddaga, skilamáta og uppgjörstímabila:

  • Lanbúnaðarskil, sex mánaða uppgjörstímabil jan-jún 2020, á gjalddaga 1. september 2020
  • Almenn mánaðarskil virðisaukaskatts vegna júlí á gjalddaga 7. september 2020
  • Almenn mánaðarskil afskráðra aðila vegna áætlana sem hafa verið skráðir að nýju vegna ágúst 2020 og september 2020. Gjalddagar 15. september 2020 í fyrra tilfellinu og 15. október í því síðara.
  • Almenn tveggja mánaða skil virðisaukaskatts vegna júlí og ágúst á gjalddaga 5. október 2020
  • Almenn mánaðarskil virðisaukaskatts vegna ágústmánaðar á gjalddaga 5. október 2020.