*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Erlent 28. febrúar 2020 18:05

Fella niður flug vegna kórónuveirunnar

EasyJet ætlar á næstunni að fella niður flug og skera niður kostnaði í rekstrinum. Eftirspurn dregist saman vegna kórónuveiru.

Ritstjórn
epa

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet ætlar á næstunni að fella niður flug og skera niður kostnaði í rekstrinum. Ræðst flugfélagið í þessar aðgerðir vegna kórónuveirunnar, en veiran hefur valdið miklum samdrætti í eftirspurn eftir flugferðum til Ítalíu og fleiri evrópskra landa. Reuters greinir frá.

Flugfélagið, sem flýgur aðallega styttri leggi innan Evrópu, segir að enn sé of snemmt til að meta hve mikil áhrif veiran mun koma til með að hafa á rekstur félagsins á árinu. 

Gengi hlutabréfa easyJet féll um tæplega 5% í fyrstu viðskiptum í morgun, en alls hefur gengi félagsins fallið um 26% frá síðustu áramótum.