*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 28. nóvember 2011 16:43

Fella niður síðdegisflug til Lundúna á miðvikudag

Icelandair fellir niður flug vegna verkfallsaðgerða starfsmanna á Heathrow.

Ritstjórn

Icelandair fellir niður síðdegisflug til og frá London á miðvikudag vegna verkfalls á Heathrow.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Flugið verður fellt niður vegna verkfallsaðgerða starfsmanna bresku flugmálastjórnarinnar á Heathrowflugvelli.

„Eins og fram hefur komið í fréttum hafa bresk flugmálayfirvöld gefið út að miklir erfiðleikar og tafir verði þar á miðvikudaginn vegna verkfallsins og hafa hvatt flugfélög til þess að fella niður flug svo forða megi neyðarástandi. Þetta var ítrekað á fundi með flugrekendum nú síðdegis,“ segir í tilkynningu Icelandair.

Þá kemur fram að Icelandair hefur haft samband við farþega á fluginu með textaboðum og boðið þeim að færa sig á önnur flug.

Ekki er gert ráð fyrir að breytingar verði á morgunflugi Icelandair, FI450/451, til og frá London á miðvikudaginn, né að þessi breyting valdi röskun á öðru flugi Icelandair.