Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur í hyggju að fallast á beiðni Íslandspósts (ÍSP) um niðurfellingu viðbótarafsláttar fyrir magnpóst. Ákvörðunin mun líklega þýða að tvö fyrirtæki, Póstmarkaðurinn og Burðargjöld, munu hætta starfsemi. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins.

Í maí á þessu ári tilkynnti ÍSP PFS að félagið hygðist breyta afsláttarkjörum þeim sem gilt höfðu með því að fella niður afsláttinn. Grundvöllur fyrir slíkum afslætti væri ekki lengur fyrir hendi. Áætlað var að breytingin tæki gildi þann 1. september síðastliðinn.

Fyrirhugaðar breytingar voru settar í samráð en meðal annars bárust umsagnir frá Burðargjöldum og Póstmarkaðinum. Þau sinna svokallaðri söfnunarþjónustu en starfsemin byggir alfarið á því hagræði sem hlýst af umfangsmiklum reglubundnum viðskiptum. Niðurfelling afsláttanna myndi þýða að starfsemi þeirra yrði sjálfhætt.

Ákvörðun ÍSP myndi þýða að rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna myndi hverfa í einu vetfangi með tilheyrandi fjártjóni fyrir fyrirtækið og hluthafa. Sú litla samkeppni sem er á póstmarkaði myndi síðan leggjast af.

Þann 1. júlí birti PFS bráðabirgðaákvörðun í málinu. Þar kom fram að mikilvægt væri að koma í veg fyrir mögulega röskun á markaði og því lagt til að breytingarnar myndu ekki taka gildi fyrr en PFS hefði lokið málsmeðferð sinni. Gildistöku skilmálabreytingarinnar var því frestað þar til málsmeðferðinni yrði lokið en þó ekki lengur en til 31. desember 2019.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ákvörðunin muni liggja fyrir í dag og að fallist verði á beiðni Póstsins. Blaðið hefur þó heyrt misvísandi hluti um það hvenær umrædd breyting á að taka gildi, annars vegar hefur 1. janúar 2021 verið nefndur til sögunnar en hins vegar 1. apríl sama ár. Það ætti að skýrast síðar í dag þegar ákvörðunin verður birt.