Bílaleiga þarf ekki að greiða tæplega 17 milljónir króna í vörugjald af bifreiðum sem hún flutti inn hingað til lands árið 2017. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar en nefndin felldi úr gildi úrskurð tollstjóra en nefndin taldi að afgreiðsla embættisins á máli leigunnar hefði ekki verið í samræmi vð rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna.

Bílaleigur njóta samkvæmt lögum afsláttar á vörugjaldi við innflutning á bifreiðum hingað til lands. Umrædd bílaleiga sendi inn umsókn þess efnis í upphafi árs 2017 og flutti í kjölfarið inn fjölda bifreiða. Ári síðar upplýsti tollstjóri fyrirtækið um að embættið hefði í hyggju að innheimta eftirgefin vörugjöld. Ástæða var sú að stjórnvaldið taldi ekki unnt að sannreyna að bílarnir hefðu eingöngu verið leigðir út en slíkt er skilyrði fyrir því að njóta afsláttarins.

Þessa ályktun dró tollstjóri af upplýsingum um sex bifreiðar af þeim tæplega sjötíu sem bílaleigan hafði flutt inn. Til að njóta afsláttarins þyrfti að sýna fram á að 90 prósent aksturs þeirra hefði verið vega útleigu. Að mati embættisins hafði ekki verið hirt um að halda nákvæma skrá um akstur þeirra og skilyrðið því brostið. Lagði það gjaldið því á að fullu að viðbættu 50 prósent álagi.

Í úrskurði yfirskattanefndar sagði að ákvörðun tollstjóra hefði byggt á því að almennt hefði ekki verið haldið nákvæmlega utan um akstur útleigðra ökustækja hjá leigunni. Hins vegar hefði ekki verið fjallað um fyrirliggjandi upplýsingar um akstur bifreiðanna sex og engar rökstuddar ályktanir dregnar af þeim gögnum um hvort bílarnir hefðu verið leigðir út.

Þá var einnig bent á það af nefndinni að bílaleigan var aðeins krafin um upplýsingar um sex bifreiðar af þeim 68 sem undanþágan frá vörugjöldunum náði til. Þó tollstjóra þættu þær upplýsingar ófullnægjandi þá segðu þær ekkert um akstur annarra bifreiða. Sökum þess hefði rannsókn og undirbúningi málsins hefði verið verulega ábótavant og úrskurðurinn því felldur niður.