Nicolas Maduros, varaforseti Venesúla, hefur látið fella gengi bólivarsins, þjóðargjaldmiðils landsins, um 32% gagnvart Bandaríkjadal. Þetta er gert til að blása lífi í hagkerfi landsins  og einkaneyslu og auka hagvöxt. Íbúar í Venesúela eru mjög háðir innflutningi.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir Maduro hafa gripið til gengisfellingarinnar fljótlega eftir að hann sneri aftur heim frá Kúbu. Þar var hann í heimsókn hjá Hugo Chavez, forseta landsins, sem hefur verið þar í krabbameinsmeðferð síðan í byrjun desember og veitti hann Maduro þetta ráð í efnahagsmálum.

BBC segir þetta fimmta skiptið sem gengi bólivarsins er fellt síðan ríkisstjórn Hugo Chavez tók að handstýra gengismálum fyrir tíu árum.  Síðast var gengið fellt árið 2010.

BBC hefur eftir Maduro að meðferð Chavez gangi vel.