Icelandair felldi í dag niður 22 af 30 fyrirhuguðum brottförum og 20 af 26 fyrirhuguðum komum sem þýðir að 75% af áætluðum flugferðum félagsins í dag voru felldar niður. Þetta var áður en íslensk stjórnvöld ákváðu að taka þátt í ferðabanni ESB sem þýðir að ferðamönnum utan Schengen svæðisins verður ekki heimilt að koma til landsins nema með undanþágu í 30 daga. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra bendir þó á að komu ferðamanna sé að mestu sjálfhætt vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að þátttaka Íslands í ferðabanni hafi óveruleg áhrif á Icelandair vegna þeirra víðtæku ferðabanni sem þegar eru í gildi hjá öðrum þjóðum. Stjórnvöld hér á landi sem og víða um heim varað fólk við ónauðsynlegum ferðalögum til erlendis og mörg hver hafa gripið til þess ráðs að loka landamærum sínum.

Ásdís segir að sem stendur birti félagið uppfærða flugáætlun um 48 klukkustundir fram í tímann sem hægt er að fylgjast með á vef félagsins. Félagið reyni að vera sveigjanlegt og fljúga eins og mögulegt er til að mæta þeirri eftirspurn sem sé til staðar.

Í hádegisfréttum RÚV var bent á að í stöðuskýrslu almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra kæmi fram að 2.960 Bandaríkjamenn hafi farið um Keflavíkurflugvöll fimmtudaginn 12. mars, sama dag og Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um ferðabann frá Schengen svæðinu til Bandaríkjanna. 18. mars hafi einungis 525 Bandaríkjamenn farið um flugvöllinn. Þá fóru fóru 243 Belgar um völlinn þann 12. mars en enginn Belgi þann 18. mars.