Áform eru uppi um að fella niður gjöld á flugfélög sem nota Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll til millilandaflugs. Tilgangurinn er sá að laða flugfélög til að hefja starfsemi á flugvöllunum. Þá hyggst ríkið verja fé til markaðssetningar á flugvöllunum, að því er kemur fram í Fréttablaðinu.

Haft er eftir Matthíasi Imsland, formanns starfshóps sem kannar möguleika á milliandaflugi frá landsbyggðinni, að aukin notkun á þessum flugvöllum myndi skapa tekjur sem næmu 1,3 milljörðum króna árlega fyrir ríkissjóð. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu sem var unnin fyrir starfshópinn og miðar við að tvær lendingar séu á viku á hvorum flugvelli þar sem í hverju flugi séu hundrað ferðamenn. Sé miðað við ábata fyrir Norðausturland er áætlað að hann nemi 3,6 milljörðum króna árlega.

Matthías segir að mikilvægt sé að ná bættri dreifingu á ferðamönnum með notkun fleiri flugvalla, án þess þó að draga úr komum til Keflavíkur. „Fjöldi lendinga í viku hverri er um 400 yfir hásumarið í Keflavík. Því erum við aðeins að tala um eitt prósent af lendingum til landsins. Þetta mun því ekki hafa nein neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á öðrum stöðum á landinu. Innviðir á norðausturhorni landsins eru vannýttir stóran hluta árs og æskilegt og gott fyrir íslenskt samfélag að nýta þessa innviði betur og dreifa ferðamönnum betur um landið," segir Matthías.