Ljómi skattaparadísarinnar á Cayman eyjum virðist vera farinn að fölna ef marka má ört lækkandi íbúðaverð. Samkvæmt tölum Global Property Guide  frá 2. desember, þá nemur meðaltalslækkunin á fasteignum um 15% á árinu 2010. Er ástæðan rakin til minni eftirspurnar í kjölfar fólksfækkunar. Um 280 bankar eru með aðsetur á eyjunum.

Vísað er í tölur Economics and Statistics Office á Cyman eyjum sem sýna að íbúum á eyjunum fækkaði um 7,3% á árinu 2009. Þar munar verulega um erlent vinnuafl sem flutt hefur úr landi í kjölfar samdráttar. Um 50% vinnuafls í byggingariðnaði hefur komið frá útlöndum. Þannig fækkaði íbúum með erlent ríkisfang úr 25.152 í 21.655 eða um nærri 14%. Þessi hópur hefur þó aðallega losað íbúðir á leigumarkaði og sitja mörg fasteignafélög því uppi með tómt leiguhúsnæði. Á sama tíma féll hagvöxtur um 6,6% og verðbólga var komin niður fyrir núllið.

Á lúxusíbúðamarkaði í húsum sem gjarnan eru við sandstrendur eyjanna hefur salan þó haldist þokkaleg.