Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðað fiskistofustjóra og fulltrúa starfsmanna Fiskistofu á fund sinn í dag þar sem hann afhenti þeim bréf um breytta tilhögun á áformum um flutning höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Í bréfi ráðherra kemur fram að áfram standi til að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá höfuðborginni til Akureyrar ef breyting á lögum um stjórnarráðið nær fram að ganga á vorþingi, en þar er lagt til að ráðherra hafi heimild til að kveða á um aðsetur stofnunarinnar.

Í kjölfar ákvörðunar um að flytja stofnunina norður, að fenginni lagaheimild, mun fiskistofustjóri flytjast til höfuðstöðvanna á Akureyri og starfa þar ásamt starfsmönnum sem þar eru fyrir, öðrum sem óska eftir flutningi til Akureyrar og nýjum starfsmönnum sem til stendur að ráða.

Hins vegar munu aðrir núverandi starfsmenn stofnunarinnar sem starfa á höfuðborgarsvæðinu hafa val um starfsstöð milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins.