Litlu munaði að Björgólfur Thor Björgólfsson næði ekki inn á lista The Times yfir 100 ríkustu menn Bretlands. Bakkavararbræður og tengdamóður fyrrverandi forseta Íslands er ekki að finna á listanum að þessu sinni.

Samkvæmt mati The Times jókst auður Björgólfs um 37 milljónir punda, andvirði ríflega 6,4 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins, frá síðasta ári. Þrátt fyrir eignaaukningu fellur hann um átta sæti milli ára, úr 92. sæti í það hundraðasta. Auðæfi Björgólfs eru metin á 1,6 milljarða punda slétta eða tæplega 278 milljarða íslenskra króna.

Þetta er annað árið í röð sem Björgólfur lækkar á listanum en á lista ársins 2019 var hann í 91. sæti eftir að hafa tapað 91 milljón punda. Meðal þeirra sem hann missir fram úr sér eru Jonas og Mathias Kamprad, oft nefndir í sömu andrá og IKEA, en þeir bræður juku auð sinn um 260 milljónir punda.

Á lista The Times í fyrra voru Ágúst og Lýður Guðmundssynir í 320. sæti, féllu þá um 73 sæti, en þeirra er ekki getið í samantekt þessa árs. Sú telur að vísu aðeins 250 auðugustu einstaklingana eða fjölskyldurnar. Sömu sögu síðan er að segja af Alisu Moussaieff, móður Dorritar Moussaieff, en sú var í 361. sæti í fyrra.