Félögin Q Iceland Finance og Q Iceland Holding voru úrskurðuð gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Félögin voru bæði fjárfesteingafélög Mohammed Bin Khalifa Bin Hamad al-Thani frá Katar.  Q Iceland Finance keypti um 5% hlut í Kaupþingi rétt áður en bankinn fór í þrot en hitt félagið var móðurfélagið. Kaupþing lánaði félögun Al Thanis 50 milljónir dala til kaupa á hlutnum.

Sérstakur saksóknari ákærði þá Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, Hreiðar Má Sigurðsson, sem var bankastjóri, Ólaf Ólafsson, einn af helstu hluthöfum Kaupþings og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, fyrir umboðssvik vegna þess sem hann taldi ólögmæta lánveitingu og markaðsmisnotkun vegna viðskiptanna. Þetta var eitt umsvifamesta málið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Dómur féll í málinu í desember í fyrra. Þar var Hreiðar Már dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi vegna aðildar sinnar að Al Thani-málinu, Sigurður hlaut fimm ára dóm, Ólafur þriggja og hálfs árs dóm og Magnús þriggja ára dóm. Þeir áfrýjuðu allir til Hæstaréttar.