Félög geta sótt um heimild ársreikningaskrár fyrir 15. desember næstkomandi til að gera upp í erlendri mynt á þessu ári.

Stjórnarfrumvarp þessa efnis hefur verið lagt fram á Alþingi.

Í skýringum frumvarpsins segir að það sé lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir í efnahagslífi landsins og þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á gengi íslensku krónunnar á árinu.

„Í tengslum við fall íslensku krónunnar á árinu 2008, gagnvart öðrum gjaldmiðlum, kann eigið fé félags í íslenskum krónum, við gerð ársreiknings í lok árs 2008, í sumum tilvikum ekki að gefa rétta mynd af raunverulegri stöðu viðkomandi félags, þ.e. í þeim tilvikum þegar íslenska krónan er ekki sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í viðskiptum viðkomandi félags á árinu," segir í skýringum frumvarpsins.

Af þeim ástæðum er ársreikningaskrá annars vegar heimilað að samþykkja afturvirkt fyrrgreindar beiðnir félaga fyrir reikningsárið 2008 og hins vegar er framlengdur umsóknarfrestur fyrir reikningsárið 2009.

Frumvarpið í heild má finna hér.