Stóru bankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, hafa undanfarið birt lista yfir helstu eignarhluti sína í félögum í óskyldum rekstri. Samkvæmt lögum mega bankarnir ekki eiga hlut í félögum í óskyldum rekstri lengur en í 12 mánuði. Fjármálaeftirlitið getur þó lengt þennan frest ef rökstudd umsókn um slíkt berst.

Samkvæmt samantekt FME var staðan 1. september þannig að af 72 fyrirtækjum sem bankarnir áttu og voru í óskyldum rekstri höfðu 68 umsóknir um aukinn frest verið afgreiddar. Samkvæmt því var eignarhald fjármálafyrirtækja á fjórum félögum enn innan þeirra 12 mánaða tímamarka sem lögin gera ráð fyrir.

Bankarnir hafa sætt töluverðri gagnrýni fyrir að hafa dregið að selja þessi fyrirtæki. Meðal annars sendi Félag atvinnurekenda (FA) bréf til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fyrir skömmu, þar sem skorað er á stjórnvöld að bregðast við eignarhaldi fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldumrekstri.

Arion banki birti sinn lista fyrr í vikunni og í tilkynningu segir að stefna bankans sé að eiga ekki eignarhluti í félögum í óskyldum rekstri lengur en nauðsyn krefji.

Íslandsbanki birti sinn lista í síðustu viku og í tilkynningu bankans segir að bankinn hafi „leitast við að selja eignir í óskyldum rekstri enda ekki stefna bankans að eiga slíkar eignir til lengri tíma“.

Landsbankinn birti sinn lista um miðjan síðasta mánuð og í tilkynningu bankans segir að bankinn hafi „á síðustu árum þurft að taka yfir töluvert af eignum til að verja sínar kröfur. Bankinn hefur lagt áherslu á að losa slíkar fullnustueignir út eins hratt og kostur er og á ásættanlegu verði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .