Ellefu félög í eigu lykilstjórnenda í Glitni banka, sem fengu lán til hlutabréfakaupa í bankanum í maí 2008, töpuðu samtals 8,6 milljörðum króna árið 2008 samkvæmt ársreikningum félaganna. Hlutabréf í bankanum urðu verðlaus þegar Glitnir féll en eftir stóðu lánin sem höfðu hækkað verulega vegna gengislækkunar. Upphæðin er enn þá hærri ef horft er til allra félaga lykilstjórnenda, er fengu lánað, því nokkur þeirra hafa ekki enn þá skilað reikningum sínum inn til Ársreikningaskrár vegna ársins 2008.

Fjórir starfa enn hjá bankanum

Kaupin voru í tengslum við hvata- og tryggðarkerfi Glitnis. Fimm félög töpuðu hvert og eitt yfir 1,2 milljörðum króna en þau höfðu fengið 800 milljóna króna lán frá bankanum í maí. Þetta eru Gnómi ehf. (í eigu Jóhannesar Baldurssonar), Strandatún ehf. (í eigu Rósants Más Torfasonar), Margin ehf. (í eigu Magnúsar Arnars Arngrímssonar), AB 154 ehf. (í eigu Vilhelms Más Þorsteinssonar) og Einarsmelur 18 ehf. (í eigu Einars Arnar Ólafssonar). Eigendur félaganna eru allir starfsmenn Íslandsbanka í dag nema Einar Örn sem stýrir Skeljungi. Kristinn Þór Geirsson, sem tók nýverið við starfi aðstoðarforstjóra hjá Nýherja, fékk hæsta lánið til hlutafjárkaupanna í gegnum eignarhaldsfélagið KÞG Holding, alls 1.150 milljónir króna. Fram kemur í skýrslu RNA að 150 milljónum hafi verið ráðstafað sem arðgreiðslu út úr KÞG Holding þrátt fyrir að félagið hefði verið rekið með 50 milljóna króna tapi árið 2007. Félagið hefur ekki skilað inn ársreikningi vegna 2008.

Farið með félögin í þrot

Fyrir tveimur vikum hjó stjórn Íslandsbanka á hnútinn þegar hún beindi því til núverandi starfsmanna að félög þeirra yrðu gerð gjaldþrota. Níu af fyrrverandi starfsmönnum Glitnis starfa enn hjá bankanum og námu heildarlán til þeirra vegna hlutafjárkaupa í maí fyrir tveimur árum um 4,2 milljörðum króna. Bankinn mun þurfa að afskrifa þessar lánveitingar að fullu; veðin eru einskis virði og engar persónulegar ábyrgðir liggja fyrir.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu