Þrjú félög tengd flugfélaginu Primera Air sem varð gjaldþrota í byrjun október síðastliðnum hafa nú verið tekin til gjaldþrotaskipta að því er fram kemur í Lögbirtingarblaðinu.

Félögin sem um ræðir eru PA Holding sem átti 84% hlut í Primera Air ehf., Primera Travel Group eða PTG sem meðal annars átti Heimsferðir og fleiri erlendar ferðaskrifstofur og félagið PI sem er eigandi félagsins PTG. Efitr gjaldþrot Primera Air voru ferðaskrifstofur Primera Travel Group færðar yfir í nýja félagið Travelco.

Andri Már Ingólfsson, eigandi félaganna, sagði við Viðskiptablaðið í desember að ferðaskrifstofurnar hafi tapað fimm milljörðum króna á falli Primera Air og hafi nauðsynlega þurft á hlutafjáraukningu að halda. Alls er stefnt að því að leggja nálægt milljarð króna í nýju hlutafé í Travelco, sem að stórum hluta hefur verið greitt.

Stjórn félaganna óskaði eftir því að þau yrðu tekin til gjaldþrotaskipta. Skiptafundir í félögunum fara fram þann 1. apríl næstkomandi. Skiptastjóri Primera Air skoðar riftunarmál gagnvart stjórnendum félagsins.